Karl 13. Svíakonungur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fara í flakk Fara í leit
Skjaldarmerki Holstein-Gottorp-ætt Svíakonungur
Holstein-Gottorp-ætt
Karl 13. Svíakonungur
Karl 13.
Ríkisár 6. júní 1809 – 5. febrúar 1818 (í Svíþjóð)
4. nóvember 1814 – 5. febrúar 1818 (í Noregi)
Fæddur7. október 1748
 Stokkhólmi, Svíþjóð
Dáinn5. febrúar 1818 (69 ára)
 Stokkhólmi, Svíþjóð
GröfRiddarahólmskirkjunni
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Adolf Friðrik Svíakonungur
Móðir Lovísa Úlrika af Prússlandi
EiginkonaHeiðveig Elísabet Karlotta af Holstein-Gottorp (g. 1774)
BörnCarl Löwenhielm (óskilgetinn)

Karl 13. (7. október 1748 – 5. febrúar 1818) var konungur Svíþjóðar frá árinu 1809 og konungur Noregs frá 1814 til dauðadags. Hann var jafnframt hertogi af Suðurmannalandi. Í Noregi var hann kallaður Karl 2. eftir dauða sinn.[1]

Karl 13. var sonur Adolfs Friðriks Svíakonungs og Lovísu Úlriku drottningar, bróðir Gústafs 3. og frændi Katrínar 2. Rússakeisaraynju. Hann kvæntist frænku sinni, Heiðveigu Elísabetu Karlottu af Holstein-Gottorp, árið 1774.

Karl eignaðist enga skilgetna syni og því ættleiddi hann árið 1810 franska marskálkinn Jean-Baptiste Bernadotte og útnefndi hann erfingja sinn.

Karl, hertogi af Suðurmannalandi, í einkennisbúningi stórflotaforingja.

Þegar Karl var skírður var hann jafnframt útnefndur stóraðmíráll sænska flotans.[2] Á uppvaxtarárum sínum var Karl nánastur Gústaf 3. af öllum systkinum hans. Hann tók afstöðu með bróður sínum í deilum hans við móður þeirra og aðstoðaði Gústaf í valdaráninu árið 1772. Eftir það var hann útnefndur hertogi af Suðurmannalandi.[3]

Karl var flotaforingi á tíma Rússlandsstríðs Gústafs og sænski flotinn náði nokkrum árangri undir stjórn hans.[3] Honum var jafnframt falin stjórn yfir landhernum þegar Gústaf 3. hélt til vesturhluta ríkisins til að verjast gegn innrás Dana. Karli tókst að uppræta Anjalabandalagið, sem hugðist knýja fram friðarsamkomulag við Rússa.[4] Hann stóð síðan við hlið konungsins þegar hann knúði fram sambands- og öryggislögin á sænska ríkisþinginu.[3] Árið 1789 lagði hópur áhrifafólks, þar á meðal eiginkona og yngri bróðir Karls, á ráðin um að steypa Gústaf 3. af stóli og gera Karl að konungi. Samsærið féll um sjálft sig þar sem Karl neitaði að taka þátt í því.[5] Karl átti síðar í nánum samskiptum við leiðtoga innan stjórnarandstöðunnar, en óvíst er hvort hann vissi af eða tók þátt í samsærinu sem leiddi til þess að Gústaf 3. var myrtur árið 1792.[6]

Eftir morðið á Gústaf varð Karl ríkisstjóri fyrir bróðurson sinn, Gústaf 4. Adólf, en í reynd lét hann hirðgæðinginn Gustaf Adolf Reuterholm að mestu um stjórn ríkisins. Árið 1793 gerði Arfeltsamsærið svokallaða tilraun til að koma Karli og Reuterholm frá völdum. Karl lét af embætti ríkisstjóra þegar bróðursonur hans varð myndugur árið 1796.

Karl eignaðist einn son innan hjónabands en hann lést innan viku frá fæðingu. Þetta átti eftir að hafa mikla þýðingu fyrir framtíð Holstein-Gottorp-ættarinnar á konungsstól í Svíþjóð.

Í valdatíð Gústafs 4. Adólfs glataði Svíþjóð yfirráðum í Finnlandi til Rússa og Napóleon hertók Sænska Pommern. Þetta stuðlaði að því að Gústaf Adólf var steypt af stóli og hann sendur í útlegð ásamt konu sinni og barni. Karl var því krýndur konungur en áætlað var að hann yrði að mestu valdalaus. Þar sem Karl átti enga erfingja neyddist hann til að ættleiða danska prinsinn Karl Ágúst af Aldinborgarætt og lýsa hann krónprins Svíþjóðar. Karl Ágúst lést hins vegar úr heilablóðfalli árið 1810, sem olli miklum usla og leiddi til ásakana um að eitrað hefði verið fyrir honum. Við útför Karls Ágústs þann 20. júní 1810 réðst æstur múgur í Gamla stan í Stokkhólmi á ríkismarskálkinn Axel von Fersen og drap hann vegna gruns um að hann hefði eitrað fyrir danska prinsinum.

Karl varð að leita að nýjum erfðaprinsi. Carl Otto Mörner var sendur til Frakklands til að afla álits Napóleons Frakkakeisara um málið en á meðan hann var þar ákvað hann að eigin frumkvæði að bjóða franska markskálknum Jean-Baptiste Bernadotte sænsku krúnuna. Sagt er að Karl 13. hafi í fyrstu verið skelfingu lostinn yfir því að þurfa að ættleiða lögmannsson frá Pau. Hann varð hins vegar fljótt ánægður með hinn nýja kjörson sinn, sem fékk nafnið Karl Jóhann.

Árið 1812 tók Karl Jóhann í reynd við stjórn ríkisins vegna aldurs og heilsuleysis konungsins. Undir lok ársins 1809 hafði Karl 13. fengið heilablóðfall. Upp frá því sofnaði hann oft á ríkisstjórnarfundum, var oft ekki meðvitaður um hvað hann samþykkti eða hafnaði, og var undir miklum áhrifum frá öðrum stjórnarmeðlimum.

Líkt og margir aðrir vonaðist Karl 13. til þess að Karl Jóhann myndi endurheimta Finnland frá Rússlandi. Sú von rættist aldrei, en þess í stað var Noregur þvingaður í konungssamband með Svíþjóð árið 1814 og Karl 13. varð þvi konungur Noregs (þar sem hann er kallaður Karl 2. í dag).

Karl lést klukkan 22:14[7] þann 5. febrúar 1818 og Karl 14. Jóhann tók við krúnunni. Opinberlega var tilkynnt þann 17. mars þetta ár að konungurinn hefði veikst af brjóstsótt og því neyðst til að fela krónprinsinum stjórn ríkisins.[8] Hann var lagður til hinstu hvílu í Riddarahólmskirkjunni þann 20. mars.[9]

  • Dan Eklund, Sten Svensson och Hans Berg (ritstj,): Hertig Carl och det svenska frimureriet, ISBN 9789197833608 (2010)
  • Lars-Otto Berg og Ulf Åsén: Det svenska frimureriet under 275 år (2010)
  • Gustaf Ivérus, Hertig Karl av Södermanland. Gustav III:s broder, diss. Uppsala universitet, Uppsala 1925.
  • Thorsten Sandberg (2008). „Doldis på tronen (grein um Karl 13.)“. Populär historia (6): 32–35.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Store norske leksikon
  2. "Karl XIII:s staty, Kungsträdgården". sfv.se. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. maí 2021. Sótt 6. október 2024.
  3. 3,0 3,1 3,2 „Karl XIII“. runeberg.org.
  4. Lönnroth, Erik (2008). Den stora rollen: kung Gustaf III spelad av honom själv. Minnesbiblioteket. Stockholm: Atlantis. bls. 306. ISBN 978-91-7353-266-2.
  5. My Hellsing (2013). Hovpolitik. Hedvig Elisabeth Charlotte som politisk aktör vid det gustavianska hovet. Örebro: Örebro universitet. ISBN 978-91-7668-964-6 sid. artikel I
  6. Nationalencyklopedin på internet den 2 januari 2007, uppslagsord Karl XIII
  7. Ny svensk historia, Carl XIV Johan – Carl XV och deras tid 1810–1872, E. Lindorm/B.Lindorm/O.Hilding 1979 ISBN 91-46-13374-7 bls. 72
  8. Ny svensk historia, Carl XIV Johan - Carl XV och deras tid 1810-1872, E. Lindorm/B.Lindorm/O.Hilding 1979 ISBN 91-46-13374-7 bls. 27
  9. Ny svensk historia, Carl XIV Johan - Carl XV och deras tid 1810-1872, E. Lindorm/B.Lindorm/O.Hilding 1979 ISBN 91-46-13374-7 bls. 73


Fyrirrennari:
Gústaf 4. Adólf
Svíakonungur
(6. júní 18095. febrúar 1818)
Eftirmaður:
Karl 14. Jóhann
Fyrirrennari:
Kristján Friðrik
Noregskonungur
(4. nóvember 18145. febrúar 1818)
Eftirmaður:
Karl 14. Jóhann